Monday 27 January 2014

Lambalæri með kryddmauki, hvítlaukskryddað kartöflugratín og rjómalöguð sveppasósa í fertugs afmæli Kolbrúnar mágkonu minnar

Þetta var einstaklega skemmtileg og vel heppnuð helgi! Á miðvikudaginn flaug Snædís með börnin til Íslands í tilefni þess að systir hennar, Kolbrún Eva, var að verða fertug. Ég kom svo eftir vinnu á fimmtudeginum. Á föstudeginum náði ég að eiga góðan fund með framleiðenda sjónvarpsþáttanna og náðum við að leggja niður drög að væntanlegum þáttum sem taka á upp í mars. Eftir fundinn fórum við langfeðgar, Villi sonur minn og faðir minn Ingvar, saman í Laugardagslaugina þar sem við lékum okkur og syntum meira að segja smá spotta. 

Um kvöldið eldaði ég svo blálöngu sem ég hafði sótt til Steingríms fisksala í fiskbúðinni á Sundlaugaveginum - hægt er að sjá myndir hérna og svo er uppskriftina að finna á þessum hlekk. Afar ljúffengt. 

Veislan til heiðurs Kolbrúnu var haldin í sal Tannlæknafélagsins í Síðumúla - skemmtiatriði tókust með eindæmum vel og það var mikið hlegið! Síðan var dansað langt fram á nótt - svo mikið að mér tókst að snúa upp á hægra hnéð á mér svo ég bryð nú bólgueyðandi út í eitt í von að skíðafríið mitt fari ekki út um þúfur! Börnin mín náðu hinsvegar öll að veikjast á ferðalaginu þannig að ég sit heima núna með þrjá krakkagríslinga, yngsta með kvef, sonurinn með gubbupest og sú elsta með ofþreytu eftir helgina! 

Lambalæri með kryddmauki, hvítlaukskryddað kartöflugratín og rjómalöguð sveppasósa í fertugs afmæli Kolbrúnar mágkonu minnar


Föstudagskvöldinu varði ég svo í eldhúsinu með flugbeittan hníf í annarri hendi og fjöldann allan af lambalærum í hinni. 


Úrbeinaði ein fjórtán lambalæri og lagði í marineringu sem saman stóð af jómfrúarolíu, salti, pipar, sítrónusafa og Lamb Islandia kryddblöndu frá Pottagöldrum. 


Þetta fékk síðan að liggja yfir nótt þannig að kryddið næði að marinera kjötið vel.  


Ég gerði síðan soð úr beinunum. Byrjaði á því að skera niður lauk, hvítlauk, sellerí og gulrætur og steikja í jómfrúarolíu þangað til að grænmetið var orðið mjúkt og fallegt. Nokkrum lárviðarlaufum var bætt við.

Nuddaði lambaleggina upp úr olíu, saltaði og pipraði og brúnaði í ofni. Þegar þeir voru fallega ristaðir var þeim bætt í pottana og þeir fylltir af vatni. Hitað að suðu og látið sjóða í nokkrar klukkustundir. Það er ágætt að taka 1-2 lambaleggi til hliðar til að naga - "o mæ lord" - hvað það var gott!

Við gerðum síðan ekta kartöflugratín - þó með smá útúrdúr. Við bræddum smjörið og settum heil ógrynni af hvítlauk saman við.


Við gerðum ein tíu gratín. Kartöflurnar voru skornar í matvinnsluvél og svo skellt í álbakka sem við höfðum smurt með hvítlaukssmjörinu. Saltað vel og piprað. Svo var rjóma hellt yfir, svo aðeins meira af hvítlaukssmjörinu og að lokum rifnum osti. 


Bakað í 180 gráðu heitum ofni í fimm korter, fyrstu þrjú með álpappír yfir og svo síðasta hálftímann án álpappírsins svo að osturinn brúnaðist. 


Það þurfti tvo til að koma lærunum í girnið. Faðir minn, Ingvar, var mér svo sannarlega innan handar og ekki veitti af að fá hjálp hans - duglegri mann er vart hægt að finna! 


Þetta voru mikil glímutök! 


Þetta hafðist allt á endanum. 


Við fengum inni í skólaeldhúsi þar sem við gátum klárað að elda matinn. 


Við steiktum sveppi og lauk í potti og þegar þeir voru fallega brúnaðir bættum við soðinu saman við. Soðinu var dreift á milli þriggja potta, hitað upp aftur, rjóma bætt saman við, saltað og piprað og látið krauma og sjóða niður. Sósan var síðan þykkt með smjörbollu og skerpt á henni með ögn af soyasósu! Ljúffeng!



Lærin voru að lokum smurð með kryddmauki (biðst velvirðingar á myndinni sem tekin var með símann mínum og náði ekki betri mynd en þetta). En í raun leit þetta mjög vel út og bragðaðist þeim mun betur. Kryddmaukið var afar einfalt. Jafnir hlutar af basil, steinselju, klettasalati. Nóg af olíu þangað til þetta verður að þykku mauki. Bragðbætt með salti og pipar og skvettu af sítrónusafa.



Boðið var upp á tvenns konar vín með matnum! Fyrir þá sem vildu fá rauðvín var Trivento Tribu Cabernet Sauvignion frá Argentínu sem er ágætis rauðvín á góðu verði í Ríkinu. Þetta er fallega dökkrautt vín í glasi, ferskt og berjaríkt og kryddað. Fyrir þá sem vildu gæða sér á hvítvíni var hægt að fylla glas sitt af Vina Maipo Chardonnay sem er upprunið frá Chile. Þetta er líka prýðis sopi - heldur létt hvítvín með góðum ávaxta- og jafnvel sítrónukem. Gat ekki betur séð en að þetta hafi allt runnið ljúfflega niður! 



Það var, sko, notið - og svo var dansað! 


Skál fyrir því - og Kolbrúnu mágkonu minni!  





No comments:

Post a Comment