Wednesday 6 June 2012

Gómsæt baka með skinku, spergilkáli og ljúffengum Västerbottenosti!

Bökur af þessu tagi eru klassískur saumaklúbbsréttur. Ég man ekki eftir því þegar ég smakkaði fyrstu bökuna en ég man klárlega eftir þeirri sem mér fannst vera best. Síðla sumars 2010 leigðum við fjölskyldan húsbíl og ókum sem leið lá til Frakklands. Við keyrðum í gegnum Champagne hérað, suður til Djion í Búrgúndarhéraði, smá útúrdúr til Bern í Sviss (í gegnum Júra) og svo tilbaka til Alsace. Í sunnanverðu Alsace héraði lá leið okkar meðal annars til Colmar þar sem við röltum um fallegar göturnar. Við stoppuðum á fjölfarinni götu og settumst á kaffihús og þar fékk ég mér Quiche Lorraine í fyrsta sinn! Dásemd!

Ég hef síðan þá gert Quiche Lorraine alltént tvisvar og líka gert grein fyrir því hér á blogginu mínu. Svíar eiga líka sína útgáfu af þessari frægu böku en þar leikur Västerbotten ostur aðalhlutverkið. Svíar eiga nokkuð ríka ostgerðarhefð sem á rætur að rekja til 1000 eftir krist þegar munkar frá meginlandinu fóru að byggja sér klaustur víða um landið. Þeir tóku með sér kunnáttu frá Evrópu og síðan hafa Svíar verið duglegir að búa til osta. Flestar tegundir sænskra osta hafa þó verið harðir ostar innblásnir frá Frökkum, Belgum og Hollendingum.

Bestur finnst mér þó Västerbotten osturinn sem er einungis framleiddur af einu mjólkurbúi í Svíþjóð. Hann varð til seint á átjándu öld þegar Ulrika Elinora Lindström var uppi. Hún sá ein um að gera osta á mjólkurbúinu þar sem hún vann - og vegna þess varð hún í sífellu fyrir truflun (sagan segir að hún hafi átt í ástarsambandi við vinnumann sem krafðist vissrar athygli) við vinnu sína. Hún þurfti í sífellu að hita mjólkina upp aftur (þetta var ekki hefðbundin aðferð þar sem venjulega hitar maður mjólkina einungis einu sinni). Þrátt fyrir þessi "mistök" varð niðurstaðan einkar ljúffeng. Bragðgóður, mjúkur, ögn sýrður með sérlega góðu eftirbragði! Mér finnst þessi ostur sérlega ljúffengur til að nota í mat - og hann er sérdeilis vel til fallinn að nota í bökur sem þessa! Þið sem búið á Íslandi verðið auðvitað að velja ost í staðinn!

Gómsæt baka með skinku, spergilkáli og ljúffengum Västerbottenosti!

Botninn er mjög einfaldur. Bara að blanda 250 gr af hveiti saman við 100 grömm af smjöri sem maður brýtur hægt og rólega saman við hveitið. Bæta við hálfri teskeið af salti og síðan smáræði af köldu vatni - bara rétt nóg til að binda deigið saman í fallegan deigklump.

pastry

Næsta skref er að pakka deiginu inn í plastfilmu og setja það síðan inn í ísskáp í 30-40 mínútur til að leyfa því að jafna sig og leyfa smjörinu að stífna aðeins.

pastry2

Þá er deigið flatt út þannig að það er að minnsta kosti 30 prósent stærra heldur en eldfasta mótið sem það á að bakast í.

deigið

Bökumótið þarf að smyrja með smjöri þannig að deigið festist ekki við. Tylla síðan deiginu ofan í mótið og forma það eftir bökumótinu.

deigið skorið

Síðan klippir maður bara burt það sem stendur upp úr - auðveldast er að rúlla bara kökukeflinu yfir kantana og þá klippist deigið einfaldlega af.

baked blind

Síðan gataði ég deigið með gaffli og bakaði í 15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni. Sumir setja bökunarpappír ofan á deigið og svo baunir eða eitthvað til að hindra að deigið lyfti sér - en það dugði alveg að gata deigið lítillega.

Hráefnið

Þá var ekkert annað að gera en að undirbúa fyllinguna. Ég setti fimm egg (undan hænum sem ekki eru hafðar í búrum!) í skál, salt og pipar og svo 200 ml af rjóma, 100 ml af nýmjólk og þeytti saman með gaffli.

fylling

Næsta skref var að raða spergilkálinu, skinkunni í bökubotninn, hella síðan eggjablöndunni varlega saman við.

add cheese

Að lokum er að dreifa 150 gr af rifnum Västerbotten osti ofan á!

bökuð baka

Þá er bara að setja bökuna inn í 160 gráðu heitan ofninn og baka í 30-40 mínútur þangað til að eggin eru elduð í gegn. Það er gráupplagt að leyfa bökunni síðan að kólna og þá þéttist hún enn betur. En við vorum svöng þannig að við átum hana undir eins!

Piccini

Með matnum bárum við fram þetta ítalska rauðvín Piccini Villa al Cortile Rossi di Montalcino frá því 2008. Þetta vín hafði ég ekki bragðað áður. Þetta er vín frá Tuscany héraði í Ítalíu og er gert úr Sangiovese þrúgum, sem er ein sú algengasta í Ítalíu. Þetta er kröfugt vín - ilmar af berjum og plómum. Góð fylling með ávexti og ögn kryddað með ágætu eftirbragði. Passaði vel með Västerbottenostinum sem var ríkjandi í bökunni.

bakabonappetit

Bárum fram með salati; blönduðum grænum laufum, tómötum, kúrbít og ristuðum sesamfræjum.

Bon appetit!

P.s Minni aftur á The Doctor in the Kitchen! Verið velkominn á síðuna mína á Facebook!

2 comments:

  1. Eldaði þetta í gærkvöldi og er alsæl. Hafði gráðaost yfir til helminga á móti 26% Gotta osti.

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson10 June 2012 at 20:57

    Sæl Ólöf

    Gráðaostur hljómar eins og söngur að morgni! Prófa það næst!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete