Monday 17 August 2009

Seiðandi vorlauks og kartöflusúpa með grófu brauði og girnilegumáleggsbakka





Gatan okkar er að taka á sig endanlega mynd. Síðasta föstudag voru verðandi nágrannar í skoðunarferð um húsin. Svona forsýning áður en þau verða síðan afhent viku síðar. Það verður gaman að skipta á nágrönnum - fá venjulegt fólk í staðinn fyrir smiðina sem hafa verið nágrannar okkar síðasta hálfa árið. Ekki það að þessir smiðir hafi verið neitt hræðilegir - þvert á móti - það er bara það hversu snemma þeir byrja á morgnana að vinna. Hvern dreymir um að vakna við loftpressu klukkan tuttugu mínútur í sjö á morgnana. Svíar taka daginn snemma - ef maður leyfir sér að alhæfa ... og þeir fara snemma í háttinn. Allavega fer allt í ró eftir klukkan níu á kvöldin. Það eru bara við Íslendingarnir sem erum með læti fram eftir nóttu.


Ég hef ekki verið duglegur að elda súpur - hvað þá að blogga um þær. Ég hef einungis nokkrum sinnum bloggað um súpur. Seinast í fyrrasumar þegar breskur kollegi minn kom í heimsókn og var með erindi á lyflæknaþinginu á Selfossi. Þá gerði ég þessa fiskisúpu innblásna frá Tælandi. Einhvern tíma á frumbernsku þessarar bloggsíðu sagði ég frá þessari grænmetissúpu sem Snædís, konan mín, gerði eitt sinn. Þegar Vilhjálmur varð tveggja ára vorum við hjónin með afmælisveislu handa honum og þá buðum við uppá þessa einföldu tómatsúpu. Annars hef ég oft sagt að mér finnist súpa aldrei spennandi matur. Þetta er að breytast - maður er náttúrulega alltaf að þroskast eitthvað ... vonandi! Það vill nú vera þannig með smekk manns, bæði á mat og vínum, að þetta þróast með tímanum. Maður lærir að njóta einhvers sem áður vakti aldrei neina löngum. Rick Stein segir það að minnsta kosti í einum af sjónvarpsþáttum sínum, Food heros - another helping, eitthvað á þessa leið "Our taste evolves, we are continually moving forward". Kannski er eitthvað til í þessu hjá kallinum.


Ég man ekki í hvaða matreiðslubók ég sá þetta - en uppskrift eins og þessi finnst áreiðanlega í mörgum bókum. Þetta er það sem maður kallar "klassíker". Þetta var þó í fyrsta sinn sem ég bý svona súpu til. Það má segja að þetta sé svona ekta súpa fyrir haustið - sem er að vissu leiti rétt, svona súpur og gróft brauð eru vissulega fánaberar fyrir þá árstíð. Það sem fékk mig til að gera þetta á miðju sumri var það að það kom ný uppskera þá helgi sem ég var í búðinni. Nýuppteknar kartöflur og ný uppskera af vorlauk (reyndar frá Póllandi, sem er nú bara 4 klukkutíma í ferjunni Ystad hérna á Skáni).

Seiðandi vorlauks og kartöflusúpa með grófu brauði og girnilegum áleggsbakka


Eitt kíló af kartöflum og tveir vorlaukar, einn hvítur laukur, 5 hvítlauksrif var skorið niður í smáa bita. 30 gr af smjöri, smá skvetta af olíu var hituð í potti. Fyrst steikti ég laukinn þar til hann var glær, saltaði og pipraði, þá var kartöflunum og vorlauknum bætt saman við og steikt áfram 10-15 mínútur. Þá var einum lítra af kjúklingasoði (sem ég gerði sjálfur nokkrum vikum áður) hellt saman við og smáræði af vatni, saltað og piprað aftur og þessu leyft að krauma í klukkustund. Saltað og piprað eftir smekk. Þá var ráðist á súpuna með töfrasprota og hún maukuð þannig að hún varð alveg laus við alla bita. 50-100 ml af matreiðslurjóma var sett út í fyrir litinn og áferðina.

Brauðið var einfalt - eins og allt brauð sem ég geri. 2 hlutar hvítt hveiti, 1 hlutur haframjöl, 1 grahamsmjöl var sett í skál. Tvær og hálf teskeið af geri er vakið í 300 ml af vatni með smá sírópi út í. Þá er 3-4 msk af olíu og smá salti bætt við hveitið og þegar gerið hefur vaknað er því blandað saman við hveitið. Hnoðað í nokkrar mínútur og látið hefast í eina (eða fleiri) klukkustund. Þá er loftið hnoðað úr deiginu og mótað í brauðhleif. Penslað með eggjablöndu, saltað og þvínæst bakað í kannski 20-30 mínútur.


Með matnum bárum við einnig fram bakka með skinku, salami og nokkrum tegundum af ostum.

Með matnum drukkum við Gallo Chardonnay úr búkollu. Þetta er ágætisbúkolla - köld og góð úr ísskápnum. Það er alltaf gaman að drekka kalt hvítvín. Sjá hvernig það myndast dögg á glasinu. Þetta er ávaxtaríkt vín, perur, eins og flest Chardonnay er þetta dáldið smjörkennt vín, örlítið áfengisbragð þegar hlýnar í glasinu. Passaði prýðisvel með súpunni.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment