Tuesday 9 December 2008

Smávægilegur glaðningur í skammdeginu; ein matreiðslubók og tvær einfaldar uppskriftir

Ég hef verið latur við að blogga síðustu vikurnar. Ætli það sé ekki stemmingin frá Fróni sem smitar mann hingað yfir Atlantshafið. Samt er það þó þannig að þegar svoleiðis stemming liggur í loftinu er gott að reyna að lyfta sér upp. Þessi færsla er um þrjár hluti; tvær uppskriftir (svo einfaldar að það er varla hægt að kalla þær uppskriftir) og svo eina bók sem mér var færð að gjöf nýverið alveg óvænt.

Matreiðslubókin

Ég hef verið að fylgjast með heimasíðu Júlíusar Júlíusarsonar sem er með bloggsíðuna, http://juljul.blog.is. Frábær heimasíða ... frábærar uppskriftir. Fyllir mann innblæstri að lesa þessa bloggsíðu, sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum. Ekki nóg með það að hann hefur verið að halda út áhugaverðri síðu þá hefur hann verið að skrifa bók með Friðriki Karlssyni sem rekur veitingastaðinn Friðrik V. Þeir gera þessa bók í samvinnu ... Meistarinn og Áhugamaðurinn í samvinnu við slyngan ljósmyndara, Finnboga Marínósson.

Afraksturinn er hreint útsagt frábær. Þeir tækla 42 viðfangsefni auk sitthvorar útgáfu af fiskisúpu, hvor með sinni nálgun án þess að vita hvað hinn er að sýsla. Niðurstaðan er ótrúlega girnileg. Og ljósmyndarinn skilar svo sannarlega sínu á síðurnar. Ef ég hefði ekki fengið hana að gjöf sjálfur þá hefði ég óskað mér þessa bók í jólagjöf. Sannarlega jólalesning matgæðingsins. 

Ég ætla að fá að verja nokkrum orðum í að segja frá ferð minni á veitingahúsið Friðrik V fyrir tveimur árum - þegar góðærið var ennþá á fullum krafti og maður skrapp norður í land í leikhúsferð bara svona sísona ... vinkona mín var að leika í leiksýningu á fjölum LA, Herra Kolbert - og eftir sýninguna fórum við út að borða. Sennilega skemmtilegasta heimsókn á veitingastað sem ég hef farið. Þetta var áður en þau fluttu á nýja staðinn. Eiginkona Friðriks, Arnrún, tók á móti okkur - og þjónustan var engu lík. Mig rekur í minni að dóttir þeirra hafi verið með myndlistarsýningu, þá fjórtán ára, og afraksturinn var á veggjum staðarins. Hæfileikarík, sennilega ekki langt að sækja sköpunargáfuna. Manni leið eins og maður var í mat hjá gömlum vinum, móttökurnar voru þannig. Arnrún og Friðrik kynntu hvern einasta rétt, hvert hann átti rætur að rekja í héraðið, settust og spjölluðu við okkur. Mér leið eins og ég hefði þekkt þau lengi - án þess að hafa hitt þau fyrr eða síðar. Vona þó að ég eigi eftir að rata á veitingahúsið þeirra aftur. Maturinn var líka ógleymanlegur. Við pöntuðum matseðil hússins, sem kokkurinn ákveður, með víni. Fengum frábæra forrétti - ansi marga - tengsl við héraðið var að finna í hverjum bita. Í aðalrétt fengum við kjúklingabringu sem hafði verið fyllt og marineruð og elduð í roner (vaccúmpakkað og eldað undir þrýstingi við lágan hita) og svo nokkra dásamlega deserta. Ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma þessari heimsókn. 

Einfaldur forréttur í jólaskammdeginu

Ég er búinn að fara í eina jólaglögg í Svíþjóð - en ekki hvað. Kollegi minn, Carmen Roseman og maðurinn hennar, buðu vinnufélögum í glögg fyrsta í aðventu. Þar smakkaði ég í fyrsta sinn rétt sem ég hafði hafnað hjá Jónasi kollega mínum nokkrum dögum áður. Piparkaka með mygluosti og sultu. Ég veit - þetta er ekki uppskrift - en þetta er algerlega dásamlega bragðgott. Góð piparkaka, væn sneið af Stilton, eða líkum blámygluosti og svo góðri sultu. Ef ég hefði verið á Íslandi þá hefði ég stolist inn í ísskáp í Lönguhlíðinni og fengið mér smávegis af rabbbarasultunni sem pabbi hefur verið að sýsla við að laga á haustin úr rabbara ú Lækjarkoti. Hann gerir nokkrar krukkur, hver með sínu bragði, smá balsamikedik hér, smá koníak þar og þar fram eftir götunum. Dásamlegt. Eins og þessi skringilegi jólaréttur þeirra Svía.

Einfaldur pastaréttur fyrir sálina - ekki svo mikið fyrir hjartað

Ég hef verið að spila með Lundsskvass klubb síðustu vikurnar. Það verður að segjast að það hefur ekki gengið vel. Ég hef keppt átta sinnum og núna tapað sjö sinnum í röð. Maður verður nú samt að berjast áfram. Gæfan hlýtur að snúast mér í hag. Það bara hlýtur að koma að því. Hvað sem því líður þá kom ég seint heim í kvöld þar sem ég var að spila skvass og setti grísina mína í rúmið. Snædís skrapp í saumaklúbb með nokkrum íslenskum vinkonum sem búa hérna í Lundi. Á meðan lagaði ég þessa lygilega bragðgóðu máltíð. Ég hef lesið nokkrum sinnum um þennan einfalda rétt og jafnvel séð hann eldaðan einu sinni í einhverjum matreiðsluþætti. Allavega. Mér hefur aldrei dottið í hug að elda þennan rétt. Bæði vegna þess að hann er ansi óhollur og líka vegna þess að hann er óhollur. Tvær góðar ástæður. En í dag var ekkert annað til í skápunum annað en þetta. Pasta, smjör og salvía. Einfaldara verður þetta ekki. 

Gott spaghetti soðið í ríkulega söltuðu vatni. Á meðan er 50 gr af smjöri brætt á pönnu með smávegis af jómfrúarlolíu. Þegar smjörið er búið að freyða er ferskum salvíulaufum skellt útí og þau steikt - þau nánast poppast - lyktin í eldhúsinu verður stórkostleg - maður einhvern veginn lyftist upp af salvíu blandinni smjörlyktinni. Spaghettíið er soðið þar til það er al dente, og svo er því skellt á pönnuna og blandað saman við salvíusmjörið. Nóg af nýmöluðum pipar og parmaosti er dreift yfir. Borðið með smá brauðhleif og rauðvínstári. Þetta var bragðbetra en ég hafði ímyndað mér. Salvían verður flauelsmjúk á bragðið og seltan í smjörinu passar vel samanvið. 

Bon appetit!


No comments:

Post a Comment