Saturday 2 May 2020

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan


Undanfarnar vikur hef ég verið að skrifa ástaróða til Helga Björns, Vilborgar og Reiðmanna vindanna fyrir frumkvæði þeirra við að sameina þjóðina með söng og samhug á laugardagskvöldum. Síðasta laugardagskvöld heppnaðist svo vel að eiginkona mín felldi tár yfir söng Sigríðar Thorlacius. Vel heppnað og tilfinningaþrungið kvöld.

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan

Sveppabrauð aldarinnar


Fyrir sveppabrauð aldarinnar

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós sveppasmurostur
250 g kastaníusveppir
50 g smjör
1 hvítlauksrif
4 msk þurrkaðir sveppir
1 villisveppaostur
1/2 gullostur
handfylli gratínostur
truffluolía frá Olio Principe
þeytt eggjahvíta úr einu eggi
salt og pipar


Þetta er líklega einfaldasta matseld sem um getur. 

Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið ostinn og dreifið yfir.

Skerið sveppina í sneiðar og brúnið upp úr smjöri. Þegar sveppirnir eru komnir hálfa leið bætið þið smáttskornum hvítlauk saman við og steikið áfram. 

Vekið þurrkuðu sveppina í soðnu vatni. Veiðið uppúr og saxið niður. 

Dreifið sveppunum jafnt yfir brauðið. Rúllið þvínæst upp og þéttið aðeins saman. 


Penslið með þeyttri eggjahvítu, dreifið truffluolíu yfir. Skerið gullostinn í þunnar sneiðar og raðið ofan á brauðið. Bætið smáræði af gratínosti yfir. 

Bakið í 45 mínútur við 180 gráðu hita í forhituðum ofni. 


Sveppabrauð aldarinnar er fullkomið! 

Hið sígilda

Fyrir hið sígilda 

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós skinkusmurostur
1 hvítlauksostur
1 krukka af heilum aspas (niðursoðnum) 
1 bréf af skinku
hvítlauksolía frá Olio Principe
handfylli gratínosti
þeytt eggjahvíta af einu eggi
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið.

Hellið vökvanum af aspanum og skerið hann svo í hæfilega bita og sáldrið yfir brauðið, ásamt skinku í bitum og smáttskornum hvítlauksosti.

Rúllið svo brauðinu upp.


Blandið hvítlauksolíu saman við þeytta eggjahvítuna og penslið vandlega. 


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni. 


Hin sígilda er auðvitað gulls ígildi.

Senjórítan - gæti eins heitið "Vilborgin"

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós beikonmurostur
1 bréf af pepperóni
2/3 rauð papríka
1 papríkuostur
2 msk graslaukur
2 handfylli gratínostur
smá reykt papríkuduft
chiliolia frá Olio Principe
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið papríkuostinn í bita og dreifið yfir.

Sneiðið pepperóni, papríku og graslauk og sáldrið yfir brauðið.

Rúllið brauðinu þétt upp.


Bætið örfáum dropum af chiliolíu saman við eggjahvítuna og penslið brauðið að utan. 


 Stráið reyktri papríku yfir brauðið og setjið mikið af osti. Og svo meira af papríkudufti.


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni.


Ég bar sveppabrauð aldarinnar fram með bjór frá Borg Brugghúsi - Öskrar á Svepp. Fannst það viðeigandi. Hann er ávaxtaríkur, aðeins humlaður IPA og passaði vel með sveppabrauðinu. Annað hefði nú verið vonbrigði. 

Núna mega Helgi, Vilborg og Reiðmenn vindanna hefja upp raust sína. 

Megum við sigra þessa COVID vá saman. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment