Pages

Sunday 20 November 2016

Dásamleg veisla með gömlum vinum; Rækjukokteill ala mode, Nautakinnar með kartöflupúré og grænkálsmauki

Í gærkvöldi vorum við með gamla og góða vini okkar í heimsókn, Sigrúnu og Freysa og Elvu og Óla. Eftir því sem ég kemst næst buðum við þessu ágæta fólki fyrst í mat 2. mars 2002 - ég fann ljósmyndir af fyrsta matarboðinu fyrir tilviljun um daginn þegar google photos minnti á gamla tíma. Við höfum nú aðeins breyst á síðastliðnum 14 árum - þroskast og breytingarnar svona að mestu til batnaðar! Verður maður ekki annars að segja það? 

Allt frá því að við fengum þau fyrst í mat, höfum við skipst reglulega á að bjóða hvert öðru. En þegar að við fluttum út varð þetta hálfbrotakennt svo það er ljúft að taka upp þráðinn að nýju. Ég er farinn að hlakka til að hitta þau aftur.

Einhverjir lesendur kannast kannski við uppskriftirnar í þessari færslu en ég studdist við nokkrar uppskriftir úr bókunum mínum - bæði Tími til að njóta (sem kom út 2013) og svo Veislunni endalausu (sem kom út 2014), en auðvitað hafa þær tekið breytingum. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt þegar maður er að elda - og vill alltaf breyta og bæta, sérstaklega bæta!

Dásamleg veisla með gömlum vinum; Rækjukokteill ala mode, Nautakinnar með kartöflupúré og crema catalana

Auðvitað reyndum við hjónin að láta þau finnast eins velkominn og unnt var. Við buðum að sjálfsögðu upp á fordrykk.

Gin og tónik er auðvitað klassíker. Þó að kokteilamenningu hafi fleygt fram síðastliðin ár (kannski fyrir tilstuðlan sjónvarpsþáttarins Mad men?) - þá er ég íhaldsmaður þegar það kemur að fordrykkjum og finnst eiginlega ekkert betra en almennilegur gin og tónik.



Ég er auðvitað að brjóta reglurnar með þessu snubbótta glasi sem sést á myndunum. Það á auðvitað að bera fram þennan drykk í löngu glasi, en við erum ekki búin að finna öll glösin okkar eftir flutningana. En hann varð ljúffengur engu að síður. Þetta gin er frá Bombay Distillery og kallast Star of Bombay þar sem búið er að skerpa á bragðinu og bæta við nokkrum bragðtónum við Bombay Sapphire og er alveg einstaklega ljúffengt.


Þessi rækjukokteill birtist í bókinni minni, Tími til að njóta, en hérna er hann með smá breytingum. 

Enn nýrri rækjukokteill ala mode

Fyrir 6 

500 g rækjur
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
1-2 cm engifer
1/2 græn papríka
1/2 rauð papríka
1/2 gul papríka
1 avókadó
1/2 rauður chili
1 mangó
handfylli af steinselju/basil 
börkur af einni sítrónu
safi af einni sítrónu
2 msk góð jómfrúarolía

200 ml sýrður rjómi
2 msk tælensk-chilisósa
1/2 chili pipar
salt og pipar

6 korn tortillakökur

Eldamennskan er eins einföld og hugsast getur. Rækjurnar eru settar í skál ásamt smátt skornum rauðlauk, hvítlauk, engifer, papríkum, chili, avókadó, mangó, kryddjurtum. Sítrónan er skafin, gætið þess að skilja hvíta börkinn eftir þar sem hann er bitur á bragðið, og saxið smátt. Kreistið svo safann úr sítrónunni yfir ásamt jómfrúarolíunni. Saltið og piprið. Blandið vel saman og geymið í ísskáp í klukkustund. 

Til að búa til sósuna er öllum hráefnum blandað saman. Leggið tortillurnar á kaffibolla og annan stærri ofan á til að þyngja hana. Bakað í ofni í 30 mín. eða þangað til að þær harðna. 



Þetta var svo vel heppnað að mér finnst sjálfsagt að hafa aðra mynd af þessu. 


Með þessum rétt bárum við fram Jacob's Creek Riesling sem er ástralskt hvítvín. Þetta vín er fallega föl gulgrænt í glasi. Í nefi mildur blómakeimur og sítróna sem kemur einnig fram á tungunni. Mildir tónar sem pössuðu vel með þessum forrétti.

Langeldaðar nautakinnar í rauðvíni

Fyrir sex til átta

2 kg nautakinnar
1 gulur laukur
2 sellerísstangir
3 gulrætur
3 lárviðarlauf
4 hvítlauksrif
1 flaska kröftugt rauðvín
1 l nautasoð
1 dós tómatpúré
3 greinar rósmarín
1 msk timian
ein kanilstöng
50 g smjör
4 msk jómfrúarolía
salt og pipar



Byrjið á því að útbúa mire poix, með því að saxa lauk, sellerí, gulrætur og hvítlauk og steikið í helmingnum af smjörinu og olíunni ásamt lárviðarlaufunum þangað til að það er allt mjúkt og glansandi. Saltið og piprið. Setjið til hliðar.


Skolið og þerrið kjötið, saltið og piprið og brúnið í pottinum, nokkrar kinnar í senn. 


Þegar allar kinnarnar eru brúnaðar, setjið grænmetið aftur í pottinn og blandið vel saman.


Hellið svo rauðvíninu saman við og sjóðið upp áfengið áður en þið bætið nautasoðinu við. 


Bætið kryddjurtunum samanvið ásamt kanilnum. Saltið og piprið. Sjóðið upp sósuna og setjið síðan lokið á pottinn. Setjið pottinn í ofn við 150 gráður í 3-4 klukkustundir. 


Vilhjálmur var duglegur að hjálpa til í eldhúsinu og sá um að útbúa salatið, ásamt því að leggja á borð og hjálpa mér að taka til eftir matinn. Duglegur ungur maður. 


Eftir 3 1/2 tíma voru kinnarnar tilbúnar - lungamjúkar og ilmuðu dásamlega. Settar á disk. Allt soðið var síað í pott og fitan síuð frá. Soðið var soðið upp og skvettu af rjóma bætt samanvið. 


Það þurfti lítið annað að gera við sósuna. 

Kartöflumúsin var einföld. Flysjaði og sauð 1,2 kg af kartöflum. Blandaði saman við 200 g af smjöri (yes, 200 g af smjöri) ásamt 150 ml af rjóma. Saltaði og pipraði og maukaði saman í púré með töfrasprota. 

Skar niður 200 g af grænkáli sem ég steikti í klípu af smjöri. Setti síðan 1 glas af hvítvíni á pönnuna, sauð upp áfengið, smá sítrónusafa, salt og pipar. 


Með matnum nutum við þetta ljúffenga vín, Trapiche Gran Medalla Malbec frá 2012. Þetta er argentískt vín frá Mendoza. Dökkkirsuberjarautt í glasi. Þungur ilmur af dökkum berjum, svipuð á tungu en einnig smá súkkulaði og löngu eikuðu eftirbragði. Þrusugott vín sem bætti heilmiklu við matinn. 


Svo var bara að njóta, spjalla og hlægja í góðra vina hópi. Sum kvöld eru betri en önnur. 

Í eftirrétt var svo crema catalana - en það er efni fyrir næstu færslu - svo ljúffengur að ég held að hann gæti orðið jólaeftirrétturinn í ár! 

Bon appetit! 



No comments:

Post a Comment