Thursday 22 August 2013

Austurlenskur lax með mangó, kóríander, engifer og chilli með snöggsteiktu grænmeti í sesamolíu

Það er langt síðan að fiskur var á borðum hérna hjá okkur í Lundi. Við vorum svosum dugleg að elda og borða fisk á meðan við vorum á Íslandi, sjá hérna, en síðan að við komum heim hefur fiskur lítið sem ekkert verið á borðum, því miður. Snædís er á leiðinni til Íslands í næstu viku til að fara í árlegan veiðitúr með föður sínum og systrum. Verð að krossa fingur og vona að hún komi með eitthvað girnilegt heim. Fái hún ekkert verður hún bara að koma við í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og kaupa eitthvað girnilegt til að smygla til Svíþjóðar (ekki að ég sé að játa á mig einhvern glæp).

Ég hef gert rétti í svipuðum anda áður - sjá hérna og svo kannski hérna - en þessi var alveg sérstaklega vel heppnaður. Það er oft þannig með góðar uppskriftir að þær verða ekki til einn tveir og þrír heldur eru þær eitthvað sem þróast með tímanum og batna í hvert skipti sem maður eldar réttinn.  


Undirstöðurnar í þessum rétt var sótt til Austurlanda - það hljómar oft svo hjákátlegt þegar maður segir svona - þetta er auðvitað risastórt svæði. En áhrifin eru þaðan. Kannski færi best á því að kalla þetta "fusion" eldamennsku þar sem maður velur það sem veitir manni innblástur og blandar saman. 

Hvað sem því líður þá varð úr þessu einstaklega ljúffengur réttur sem ég hvet lesendur til að prófa. 

Austurlenskur lax með mangó, kóríander, engifer og chilli með snöggsteiktu grænmeti í sesamolíu og soya

Hráefnalisti

1,2 kg laxaflak
1/2 púrrlaukur
1 rauðlaukur
4-5 msk jómfrúarolía
3 msk teryiaki sósa
1 rauður chilli
1 mangó,
3 vorlaukar
3 hvítlauksrif
5 cm engifer
3 msk soyasósa

Meðlæti

1 msk sólblómaolía
1/2 blómkál
1 appelsínugul paprika
1 rauð paprika
1 gulrót
Handfylli af sykurertum
150 gr strengjabaunir
1/2 solo hvítlaukur
3-4 cm engifer

50 ml soyasósu
2 msk sherríi
Nokkrir dropar af sesamolíu
Salt og pipar

Ég byrjaði á því að skera hálfan púrrulauk, heilan rauðlauk og setja í botninn á eldföstu móti og ofan á það lagði ég svo 1,2 kg laxaflak. 



Penslaði með tveimur til þremur msk af jómfrúarolíu og svo öðru eins af Teriyaki sósu. Skar síðan niður heilan rauðan chilli í sneiðar og dreifði yfir laxinn. 



Því næst skar ég niður heilan mangó, þrjá vorlauka, þrjú hvítlauksrif og fimm sentimetra af engifer og sáldraði yfir. 


Setti síðan til viðbótar eina til tvær msk af góðri jómfrúarolíu og svo fjórar msk af soya sósu. Saltaði og pipraði. 




Bakaði svo laxinn í 180 gráðu heitum forhituðum ofni í 35 mínútur. Skreytti síðan með fersku kóríander.

 

Með matnum bar ég síðan fram grænmeti sem ég steikti á blússheitri wokpönnu. Skar niður hálfan haus af blómkáli, appelsínugula og rauða papríku, eina gulrót, handfylli af sykurertum og svo 150 gr af strengjabaunum. Skar einnig niður hálfan solo hvítlauk og svo svo þrjá til fjóra sentimetra af engifer afar smátt.




Byrjaði á því að steikja hvítlaukinn og engiferinn. Ég notaði sólblómaolíu - þar sem hún þolir meiri hita en jómfrúarolíann. Eftir nokkrar sekúndur setti ég svo grænmetið saman við. 




Bragðbætti grænmetið með því að setja 50 ml af soyasósu, tvær msk af sherríi og svo nokkra dropa af sesamolíu. Saltað og piprað! 


Ég átti þessa búkollu í ísskápnum. Þetta er Chardonnay/Chenin vín frá Argentínu. Var áður selt undir merkjum Trivento en kallast núna bara Mixtus. Hvað sem nafngiftum líður þá er þetta prýðisgott hvítvín sem ég kann vel við. Fallega ljósgyllt í glasi - léttur ávöxtur, þurrt og örlítil sýra með léttu ávaxtabragði. Alveg ljómandi gott!


Ég hrærði líka í einföldustu sósu sem hægt er að gera. Blandaði saman fjórum matskeiðum af sýrðum rjóma og setti saman við þrjár tsk af mangó chutney. Alveg ljómandi gott!


Tími til að njóta.


1 comment:

  1. Takk kærlega fyrir þessa uppskrift, hún er æði.

    ReplyDelete