Monday 19 March 2012

Nýtt leikfang: Römertopf! Bakaður kjúklingur með ljúffengu rótargrænmeti



Það er nóg um að vera um þessar mundir! Nóg að gera í vinnunni, í rannsóknum og í náminu! Svo ekkert vantar á að maður hafi nóg af áhugamálum sem taka sinn tíma. Í næsta mánuði á ég að kynna fyrstu niðurstöður úr doktorsverkefni mínu, en ég er að skoða faraldsfræði Rauðra Úlfa (SLE) á ákveðnu svæði hérna á Skáni. Við höfum fylgt eftir hópi sjúklinga núna í meira en þrjá áratugi og slíkt er nánast einstakt. Það er mjög áhugavert að skoða hvernig þessi sjúkdómur þróast yfir árin. Vona sannarlega að rannsóknin mín bæti einhverju við - en það kemur nú í ljós! Nóg um vinnuna!

Ég fékk þennan leirpott í afmælisgjöf frá bróður mínum. Og kann honum góðar þakkir fyrir gjöfina. Ég hef lengi verið að horfa á þessa Römertopf potta í verslunum og lengi langað í einn - bara aldrei látið verða af því að fjárfesta í einum slíkum. Og núna þarf ég ekki einu sinni að velta því fyrir mér lengur!

Römertopf leirpottar eru frá Þýskalandi og hafa verið framleiddir þar síðan 1967. En þeir byggja á árþúsunda gamalli aðferð frá tímum Rómverja (Römertopf þýðir líka rómverskur pottur). Hugmyndin er sú að þú lætur pottinn liggja í vatni í 10-15 mínútur áður en þú setur matinn í hann og þannig gufusýður maður matinn. Framleiðendur vilja meina að þetta varðveiti heilnæmi fæðunnar og að maður geti komist upp með að nota minna (eða jafnvel enga) fitu í matinn! Hvað um það - þá er þetta falleg viðbót í eldhúsið. Og rétturinn heppnaðist líka svona ljómandi vel!

Nýtt leikfang: Römertopf! Bakaður kjúklingur með ljúffengu rótargrænmeti 


Þetta var nú ekki snúin eldamennska. Og ekki tók hún langan tíma heldur. Ég þreif leirpottinn að sjálfsögðu eins og leiðbeiningar kváðu á um og svo lét ég pottinn liggja í köldu vatni í 15 mínútur á meðan ég undirbjó hráefnið.

Ég flysjaði niður nokkrar kartöflur og skar í bita, átti einnig til hálft butternut grasker sem fékk sömu meðferð, skar niður rauðlauk og svo smávegis sellerí. Penslaði botninn á leirpottinum með smá hvítlauksolíu.



Setti síðan grænmetið ofan í pottinn og blandaði saman.

Þá setti ég kjúklinginn ofan í pottinn. Nuddaði kjúklinginn með smáræði af góðri jómfrúarolíu, salt og pipar að sjálfsögðu, síðan smá papríkuduft og timian.



Lagði síðan tvo heila hvítlauka með. Þeir eiga eftir að bakast í eigin pappír og verða mjúkir og dísætir. Ég elska bakaðan hvítlauk. Hellti smá hvítvíni í botninn á pottinum. Kannski 2 dl.



Sett Römertopf pottinn inn í kaldan ofninn. Stilla á 220 gráður og og baka í einn og hálfan tíma.

Bera fram með einfaldri sósu - sem ég átti reyndar í frysti. Stundum verður maður bara að nota afganga. Ég er vanur að geyma sósur sem hafa heppnast vel og nota þegar maður er latur. Og á þessum sunnudegi var ég heldur latur!







Með matnum drukkum við Rosemount Chardonnay frá því 2009. Þetta er ástralskt hvítvín. Og er alveg ljómandi gott. Ilmar af ávexti, perum og eik. Á tungu dáldið þykkt, smjörkennt með svipuðum tónum; ávöxtur, perur og ágætlega eikað, langt, eftirbragð. Ljúfur sopi sem sómdi sér vel með þessum einfalda mat.



Frábær sunnudagsmáltíð.

Tími til að njóta!

6 comments:

  1. Hæ sæti frændi!!!

    Þetta er frábær uppskrift þar sem þetta hljómar eins og eitthvað sem ég geti í raun og veru framkvæmt, hahaha, ekkert sérlega vel að mér í eldhúsinu ennþá en er samt aðeins byrjuð að æfa mig :)

    Knús til ykkar, Elva Dögg :)

    ReplyDelete
  2. Unnur G. Kristjánsdóttir19 March 2012 at 20:49

    Yndisleg grein fyrir okkur Römertopf aðdáendur. En því skrifa ég að ég held að Römertopf séu mun eldri amk. á ég einn sem mamma kom með frá Þýskalandi 1963 - og þá hafði amma átt hann lengi. Ég mæli með lamba- eða svínaskönkum í römertopf með helling af karlottulaukum, linsubaunum, paprikum og fleira góðu.

    ReplyDelete
  3. Ragnar Freyr Ingvarsson19 March 2012 at 21:29

    Sæl Unnur

    Brá mér á heimasíðu Römertopf - og þar kemur fram að þeir héldu upp á 40 ára afmælið 2007. Framleiddu fyrsta pottinn fyrir matarsýningu í Hannóver. Yfir 25 milljón svona leirpottar hafa verið seldir. Ég ætla að prófa að elda svínakjöt í leirpottinum næstu helgi!

    Takk fyrir að kíkja við!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  4. Eygló Aradóttir25 March 2012 at 17:44

    Sæll, flott blogg hjá þér, er nú ekki alveg svona ástríðumanneskja í matargerðinni og þú, en er reyndar ástríðumanneskja um potta ;) . Reyndar hefur það með litinn á þeim að gera, féll nefnilega fyrir Staub pottum í kóbalt bláum lit;). Falla sum sé inní framtíðarplönin með eldhúsið. Eru þessir leirpottar á sömu nótum og pottjárnspottarnir?

    ReplyDelete
  5. Ragnar Freyr Ingvarsson25 March 2012 at 18:53

    Sæl Eygló

    Leirpottar þurfa aðeins aðra meðferð heldur en pottjárnspottarnir. Þá þarf að leggja í bleyti og svo þarf að hita þá varlega til þess að brotni ekki.

    Annars er ég núna með purusteik í ofninum í Römertopf pottinum mínum sem ég mun sennilega ná að blogga um í vikunni.

    Takk fyrir að kíkja við!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  6. Hver selur þessa potta hér heima

    ReplyDelete