Sunday 23 January 2011

Hin fullkomna ofnsteikta "roast" kartafla! Viva kartöflur!





Það er alveg þess virði að blogga um þetta efni. Kartöflur eru auðvitað eitt besta og vinsælasta meðlæti sem um getur. Það er nú svo að frönsk kartafla er mest selda vörutegund í heiminum en að mínu mati er ofnsteikta kartaflan sú allra besta. Það er fátt sem nær að skáka kartöflu sem hefur hlotið þá meðferð sem lýst verður. Stökk að utan og síðan létt, næstum ofelduð, að innan. Á ensku segir maður "fluffy" - ætli það myndi ekki þýðast - lókennt/flögrandi! Allar ábendingar eru vel þegnar.

Annars má meðhöndla allt rótargrænmeti á þennan hátt því til bóta - sætar kartöflur, rófur, næpur, nípur, gulrætur, seljurót, rauðrófur, lauk af hvaða gerð sem er og svo framvegis.

Síðan má gjarnan leika sér með hvaða olíur maður notar til að steikja kartöflurnar upp úr. Kraftmikil ólífuolía er auðvitað góð og gild, smjörklípa hefur auðvitað aldrei drepið neinn og gefur sitt einkennandi karmelliseraða bragð. En vilji maður ganga syndinni á hönd þá notar maður gæsa eða andafitu. Slíkt er auðvitað "decadent" en bragðið....krakkar....bragðið er rosalegt. Fátt er betra. Það er svo gott að svoleiðis má einungis gera einu sinni á ári. Ég gerði slíkt um áramótin, þannig að við þurfum að bíða í ár eftir syndinni ljúfu. Þrjúhundruðfjörutíuogtveir langir dagar.

Hin fullkomna ofnsteikta "roast" kartafla! Viva kartöflur!

Auðvitað má nota hvernig kartöflu sem er - en mjölkenndar kartöflur henta jafnvel betur en þær sem eru þéttari í sér. Skýrist nánar síðar í færslunni.


Regla 1.

Flysja kartöflurnar fyrir suðu. Þetta er mikilvægt skref. Það er til þess að ysta lagið á kartöflunni verði vel soðið og verði síðan auðvelt að ýfa upp að lokinni suðu.

Regla 2.

Sjóða í vel söltuðu vatni. Og einungis þarf að forsjóða kartöflurnar í 7 mínútur (ekki sex og ekki átta - þetta er þó ekki alveg svo heilagt). Eftir suðuna er kartöflunum hellt í sigti og þeim síðan kastað til í sigtinu (á ensku tossed - sem er aðeins mildara orð heldur en að kasta). Þetta þarf að gera varlega þar sem maður vill ýfa upp yfirborðið á kartöflunni áður en þær fara í heita fituna en þó ekki svo að þær byrji að brotna í sundur!

Regla 3.

Setja ofnskúffu á hlóðirnar og hella þeirri fitu sem á að nota;  matarolíu, jómfrúarolíu, grænmetisolíu, smjöri, hvítlauksolíu eða gæsafitu, hvað sem er bara þannig að fitan sé heit þegar kartöflurnar eru færðar yfir í skúffuna. Kartöflurnar eru síðan steiktar í fitunni í nokkrar mínútur.

Regla 4.

Salta vel og pipra. Hérna gefst líka tækifæri að lauma að nokkrum kryddum að án þess að skaða réttinn. Rósmarín, timian og slíkar harðgerðar jurtir eru fullkomnar í þennan rétt.

Regla 5.

Ofnskúffan er sett í forhitaðan ofninn, 180-200 gráður, og kartöflurnar steiktar þar til gullinbrúnar og fallegar.

Regla 6.

Búa til góðan aðalrétt sem ekki fölnar við hliðina á hinni "fullkomnu" ofnsteiktu kartöflu

Bon appetit!

rótargrænmeti

2 comments:

  1. Sæll
    Takk fyrir þennan óð til kartöflunnar. Aldrei ofhlaðin lofi, sú ljúfa afurð.
    Allrabesta meöhöndlun sætra kartaflna að mínu mati er þessi:
    Skornar í litla ferninga ... aðeins brúnaðir í olíu á pönnu ... sett í ofnskúffu og ´fersku rósmarín stráð yfir ... og svo rúsínan í pylsuendanum ... smjörklípa á víð og dreif og svo bakað í ofni í 20 mín.
    Guðdómlegt.

    ReplyDelete
  2. Las um þessa aðferð -- s.s. ýfa yfirborðið upp -- á frönsku matarbloggi í fyrra, prófaði hana og þótti ekki mikið til koma. En þar vantaði greinilega mikilvægt skref: steikja bitana áður en þeir fara inn í ofn.

    Prófaði þína aðferð í fyrrakvöld og kartöflurnar komu alveg frábærlega út!

    ReplyDelete