Tuesday 11 March 2008

Penne með hreindýrakjöti, sveppum, tómata tapenade og rauðvíni

hreindýrapasta1 Komum frá Austurríki um helgina. Búinn að vera þar í viku í dásamlegu yfirlæti á Skihotel Speiereck sem er í Lungau héraði rétt hjá Salzburg. Þar eru Doddi og Þurí húsráðendur á fallegu litlu skíðahóteli sem er í litlum bæ sem heitir St. Michael sem liggur við rætur Speiereck fjalls í Ölpunum. Bærinn sjálfur er í 1075 m hæð og tindur fjallsins fer í ca 2400 m. Skíðaleiðin niður er um 12 km í heildina. Frábær. Skíðamennska í Austurríki sameinar þrjú af mínum helstu áhugamálum ef frá er talið skvass og eldamennska. Útivera, skíði og bjór...og það glæsilegt hve vel þessi þríeind á vel saman.

Eini gallinn við þetta allt saman er hversu stutt fríið var - vika er engan veginn nóg - það er á hreinu að næst þegar ég kem mun ég vera lengur. 10 dagar á skíðum er í mínum huga algert lágmark. Það að renna sér niður brekkurnar er hreint út sagt frábært. Mér tókst líka það sem ég ætlaði mér - að skíða utan brautar - ég get ekki sagt að ég hafi gert það með glæsibrag - en það tókst. Í púðursnjó nærri því upp að hnjám á fleygiferð niður fjallið í glampandi sólskini - ég bara veit ekki hvort að lífið verði eitthvað betra! - er það?

hreindýrapasta2 Nú er maður kominn heim aftur. Fréttirnar eins dapurlegur og hugsast getur. Gengið, markaðurinn, stýrivextir, veðrið, matarverð - díses - það eru allir eins og Grikkirnir til forna - heimur versnandi fer  - þetta er nóg til að brotlenda í raunveruleikanum. Maður verður bara að gera eitthvað til að lyfta sér upp - ég tala nú ekki um þegar maður er að brotlenda með íslensku krónunni. Rauðvín bætir alla vanlíðan. Þetta var svona comfort food!

Penne með hreindýrakjöti, sveppum, tómata tapenade og rauðvíni

600 gr af hreindýragúllasi var saltað og piprað og velt upp úr smávegis af hveiti þannig að það rétt hjúpaði bitanna. Klípa af smjöri og svo olíuskvetta var hitað í potti og svo var kjötið brúnað að utan. Þegar hjúpurinn var gullinn brúnn var hann fjarlægður úr pottinum. 5 hvítlauksrif, 2 sellerísstangir, 2 gulrætur og einn fremur stór laukur - var hreinsaður, flysjaður (eins og við átti) og smátt saxaður og steiktur í pottinum. Þegar grænmetið var farið að gljáa var kjötinu bætt saman við og hrært vel saman. Kjötið og grænmetið var steikt aðeins saman og þá var einni lítilli glerkrús af tómata tapende frá Sacla hrært saman við. Steikt áfram í smá stund. Þá er hálfri flösku af góðu rauðvíni bætt saman við - ég notaði Pinot Noir frá Oyster bay - gott vín! (það er oft talað um það að maður geti notað afgangsrauðvín í mat - þvílík þvæla - þetta er sama ruglið og þeir salat2 sem segja að mysa komi í stað hvítvíns - vilji maður fá góðan mat, þá notar maður gott hráefni...tala nú ekki um ef maður er að elda hreindýr. Þá bætti ég jafn miklu vatni saman við og lét suðuna koma upp með lokið á. Leyft að krauma í eina klukkustund. Þá er lokið tekið af pottinum og soðið aðeins niður. Núna er mikilvægt að smakka aðeins til. Ég þurfti að bæta aðeins vatni saman við til að fá meiri sósu, þá varð ég fyrir því að þynna aðeins bragðið og lagaði það með því að setja smá villibráðarkraft saman við. Saltað vel og piprað...smá rauðvínsskvetta.

Gott pasta er soðið í ríkulegu söltuðu vatni þar til að það er al dente. Þá er vatninu hellt frá og smávegis sósa sett í pottinn til að hjúpa pastað og fá það til að soga í sig bragðið úr sósunni.

salat Borið fram með bagettu og góðu salati gerðu úr klettasalati, höfðingja og vínberjum.

Með matnum drukkum við Wolf Blass Presidents Selection Cabernet Sauvignion frá 2004- eitthvað sem ég náði mér í á leiðinni til landsins. Við smjöttuðum vel og rækilega á þessu með matnum. Mjúkt en samt mikið vín sem fyllti munninn með löngu eftirbragði.


No comments:

Post a Comment